fbpx

Fjarkennsla og fjarráðgjöf – vannýttir möguleikar

Heimsyfirráð kórónaveirunnar hefur breytt samfélögum heims eins og hendi sé veifað og öll samfélög þurfa að tileika sér nýja siði og starfsvenjur sem einstaklingar þeirra eru misvel tilbúnir í. Eitt af því er að nýta betur þá tækni sem við búum yfir en hefur víða verið vannýtt.

Símenntun Háskólans á Akureyri hefur undanfarin ár fetað sig sífellt meira í átt að fjarkennslu sem hefur gefið góða raun og er Stjórnendanám Stjórnendafræðslunnar ein besta sönnun þess. Stjórnendanámið er fjarnám, sérstaklega sett upp fyrir stjórnendur og millistjórnendur. Það hjálpar auðvitað að inntakið í náminu er afskaplega vandað og vel unnið af starfsmenntasjóð Sambands Stjórnendafélaga og Samtaka Atvinnulífsins en sú þróun sem hefur átt sér stað í fjarnáminu okkar í kringum Stjórnendanámið gerir það einstakt. Uppsetning fjarnámsins er á þá leið að okkur hefur tekist að búa til virkt námssamfélag í gegnum netið. Því að við vitum að gott og vandað fjarnám er ekki bara að koma upptökum á netið. Gott og vandað fjarnám snýst að öllu leiti á nálgun og þjónustu við viðskiptavini. Þar höfum við markað okkar sérstöðu. Við erum alltaf til taks fyrir okkar viðskiptavini og búum til grundvöll fyrir bekkjaranda innan nemendahópsins, jafnvel þó þau hittast aldrei í eigin persónu. Enda hefur það sýnt sig að nemendur okkar eru hæst ánægðir með hvernig til hefur tekist.

Farsælt samstarf okkar við Hugrekki – ráðgjöf og fræðslu hefur einnig sýnt og sannað hvað þörfin fyrir fjarþjónustu er mikil og margir áhugasamir að læra að bjóða slíka þjónustu. Ingibjörg Þórðardóttir félagsráðgjafi hjá Hugrekki  er frumkvöðull í að bjóða fjarheilbrigðisþjónustu. Ingibjörg fékk þá hugmynd að bjóða slíka þjónustu árið 2008 þegar hún vann sem ráðgjafi hjá Stígamótum og flaug út um land í viðtöl við þolendur ofbeldis. Þessi hugmynd varð svo að veruleika hjá Ingibjörgu árið 2013 þegar hún flutti í lítið samfélag úti á landi þar sem eftirspurn eftir hennar sérþekkingu var ekki mikil. Ingibjörg sótti sér þá nám og þjálfun til Bretlands þaðan sem hún lauk námi í fjarmeðferð, „diploma in on line counselling and psychotherapy“, fyrst Íslendinga. Ingibjörg er með starfsleyfi landlæknis í fjarheilbrigðisþjónustu og kennirauk þess sérfræðingum á ýmsum sviðum fjarmeðferðir bæði hjá Símenntun Háskólans á Akureyri og í Bretlandi.

Þörfin fyrir slík fagleg úrræði hafa berlega komið í ljós við útbreiðslu COVID-19 veirunnar. Þegar unnið er í fjarþjónustu með ákveðið millistykki milli fagaðila og skjólstæðinga/viðskiptavina er mjög mikilvægt að vita hvernig þetta millistykki virkar og hvaða áhrif það hefur. Það þarf ekki annað en að skoða kommentakerfi samfélags- og fréttamiðla til að sjá hvernig hegðun fólks getur breyst þegar þessi fjarlægð er komin og þetta öryggi sem fólk mögulega upplifir við að vera ekki á staðnum. Þessi breyting getur verið bæði jákvæð og neikvæð og það skiptir miklu máli að fagaðilar sem bjóða meðferð og ráðgjöf í gegnum netið séu meðvitaðir um þetta og hvernig þarf að bregðast við því. Það er líka mikilvægt fyrir þjónustuaðila að nota öruggan búnað og tæki við þjónustuna og að fylgja tækninni eftir sem og reglum sem mögulega geta átt við um þjónustuna.

Við hjá Símenntun erum alltaf tilbúin að bæta við okkur verkefnum í kringum fjarþjónustu og deila þannig okkar kunnáttu og reynslu með öðrum.