Sitt sýnist hverjum um frumvarp um einkarekna fjölmiðla Málið rætt í Háskólanum á Akureyri 8. og 9. febrúar

Frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, um stuðning við einkarekna fjölmiðla hefur verið lagt fram á Alþingi og sýnist sitt hverjum um innhald þess. Ýmsir hafa tjáð sig um frumvarpið, þær fjárhæðir sem þar eru kynntar og hvaða fjölmiðlar hafa gagn af því og hverjir ekki.  Þetta mál verður tekið fyrir á tveggja daga ráðstefnu við Háskólann á Akureyri um næstu helgi, 8 og 9 febrúar.

Meðal þeirra sem fjalla um málið eru Þorgeir Ólafsson, frá mennta-og menningarmálaráðuneytinu en hann er einn af þeim sem hefur komið hvað mest við sögu við vinnslu frumvarpsins. Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar mun einnig taka þátt í umræðum um rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi og gera samanburð á íslensku fjölmiðlaumhverfi og starfsskilyrði fjölmiðla í hinum ríkjum Norðurlandanna.

Auk þeirra munu talsmenn fjölmiðla ræða stöðu og rekstrarskilyrði fjölmiðla á landsbyggðinni og fjallað um gæði, innihald  og framtíð fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins.

Ráðstefnan er sérstaklega ætluð fólki sem starfar við fjölmiðla en allir áhugasamir eru velkomnir. Skráning fer fram í gegnum Símenntun Háskólans á Akureyri simenntunha.is